Tveggja daga námskeið um Jákvæðan aga í kennslustofunni eru hugsuð fyrir kennara, stjórnendur og annað starfsfólk í skólum sem vilja tileinka sér hugmyndafræðina og kynnast þannig aðferðum til að auka lýðræði, skilning og samstöðu í skólastarfinu og bæta jafnframt hegðun og árangur nemenda. Að loknu námskeiðinu öðlast þátttakendur viðurkenningu til að nýta jákvæðan aga í skólastarfi (Certified Positive Discipline Classroom Educator) og hafa m.a. öðlast færni í eftirfarandi:

  • Að nýta sér fjölbreyttar aðferðir sem einkennast af góðvild og festu.
  • Að koma á skýru og öruggu vinnulagi í skólastofunni.
  • Að skapa lýðræðislegt andrúmsloft með nemendum sem einkennist af jafnræði og er byggt á gagnkvæmri virðingu.
  • Að skilja þær ástæður sem liggja að baki mismunandi hegðun nemenda og vita hvernig hægt er að koma á jákvæðum breytingum á hegðun og líðan þeirra.
  • Að halda áhrifaríka bekkjafundi þar sem nemendur læra félagsfærni og lausnaleit á jafningjagrunni.
  • Að kunna skil á hugmyndafræði Jákvæðs aga / sjálfsstjórnarkenningum sem byggðar eru á verkum Alfreds Adler, og geta nýtt sér hugmyndafræðina í kennslustofunni og í skólasamfélaginu almennt.

Þeir sem ljúka tveggja daga námskeiði fá ársaðild að samtökunum Jákvæðum aga á Íslandi og þar með Positive Discipline Association. Námskeiðið getur verið grunnur að frekara námi um Jákvæðan aga. Þátttakendur fá eftirfarandi rit til eignar:

Positive Discipline in the Classroom: Bók sem fjallar um Jákvæðan aga í kennslustofunni og lýsir aðferðum til að kenna nemendum sjálfsstjórn og sjálfsaga, ábyrgð, gagnkvæma virðingu og lausnaleit.
Jákvæður agi í skólastarfinu: Hér er um að ræða hagnýta handbók með ábendingum og æfingum til að nota í kennslustofunni og á bekkjafundum. Einnig inniheldur bókin sumar af æfingunum sem gerðar eru á tveggja daga námskeiðinu svo að þú getir rifjað þær upp seinna og lært enn frekar af þeim. Þá er í bókinni að finna ýmsar hagnýtar upplýsingar og æfingar fyrir leiðtoga í skólum. Um er að ræða íslenska þýðingu á bókinni Positive Discipline in the School and Classroom.