Bekkjafundir gefa nemendum tækifæri til að læra með þátttöku. Fundirnir veita æfingu fyrir nauðsynlega færni sem ábyrgir, meðvitaðir og úrræðagóðir þjóðfélagsþegnar þurfa að búa yfir.

Sýn Jákvæðs aga snýst um að skólar og heimili búi börnum aðstæður þar sem þau þurfa aldrei að upplifa niðurlægingu þegar þeim mistekst heldur séu þau valdefld með því að gefa þeim tækifæri til að læra af mistökum í öruggu umhverfi.

Með Jákvæðum aga styrkjum við þrenns konar viðhorf og ferns konar færni hjá nemendum:

Þrjú valdeflandi viðhorf sem hjálpa börnum að ná árangri í skólanum og lífinu.
Ég get!
Ég legg mitt af mörkum og mín er þörf
Ég nýti mína krafta og tækifæri til að hafa jákvæð áhrif á mig og mitt samfélag

Fjórar tegundir af hæfni sem hjálpa börnum að ná árangri í skólanum og lífinu:
Ég bý yfir aga og sjálfsstjórn
Ég get unnið með öðrum af virðingu
Ég skil hvernig hegðun mín hefur áhrif á aðra
Ég get þróað innsýn, visku og dómgreind mína í gegnum daglegar athafnir

Ég get!
Til að ungt fólk geti þróað með sér trú á eigin getu þarf aðstæður þar sem það getur kannað afleiðingar af viðbrögðum sínum og hegðun án þess að felldir séu harðir dómar og án þess að það upplifi ásakanir, skömm eða niðurlægingu. Aðferðir Jákvæðs aga leggja til slíkt andrúmsloft þar sem nemendur geta rýnt í sína hegðun og annarra, uppgötvað hvaða afleiðingar hegðunin hefur fyrir þá sjálfa og aðra, og tekið þátt í að leita lausna á áhrifaríkan hátt til að breyta samskiptum á jákvæðan hátt.

Ég legg mitt af mörkum og mín er þörf
Til að ungt fólk geti þróað með sér trú á eigið mikilvægi þarf það að upplifa að á það sé hlustað og tilfinningar þeirra, hugsanir og hugmyndir séu teknar alvarlega. Þau þurfa að vita að „þau séu mikilvæg og að þau skipti máli“. Jákvæður agi leggur áherslu á að allir fái tækifæri til að lýsa sínum skoðunum og og leggja fram tillögur og til þess höfum við skipulögð ferli sem einkennast af virðingu. Nemendur læra að þau geta lagt sitt af mörkum í lausnaleit og við að prófa nýjar lausnir og aðferðir. Þau upplifa þannig meginmarkmið allra – að upplifa og skipta máli.

Ég nýti mína krafta og tækifæri til að hafa jákvæð áhrif á mig og mitt samfélag
Margir gleyma að nemendur hafa ríka þörf fyrir að hafa áhrif og að þau leitast við að gera það. Ef þau fá ekki tækifæri til að nýta áhrif sín og krafta á jákvæðan hátt er hætta á að þau noti óæskilegar leiðir til þess. Til að ungt fólk geti þróað jákvæðar leiðir til að hafa áhrif þarf það tækifæri til að leggja sitt af mörkum á jákvæðan hátt, í umhverfi sem hvetur þau til þess en krefst þess einnig að þau sýni ábyrgð. Þau þurfa að læra að skilja að þau eru mikilvægur hluti af umhverfinu og hvernig þau geta lagt sitt af mörkum til að bæta það. Jákvæður agi leggur áherslu á að mistök eru eðlileg, nemendur upplifa að það er eðlilegt að gera mistök og að við getum nýtt þau til lærdóms og reynslu. Á bekkjafundum læra þau að taka ábyrgð á gerðum sínum því að í stað þess að vera refsað fá þau aðstoð við að leita leiða til að læra af mistökunum. Þau læra einnig að jafnvel þegar þau geta ekki stjórnað því sem gerist þá geta þau samt stjórnað eigin viðbrögðum við því sem gerist.

Ég bý yfir aga og sjálfsstjórn
Jákvæður agi leggur áherslu á að nemendur geti nefnt og þekkt tilfinningar og þróað samhygð og samúð með öðrum. Ungt fólk hlustar frekar ef það er hlustað á þau sjálf. Þau öðlast skilning á eigin tilfinningum og upplifunum með því að fá endurgjöf frá jafnöldrum sínum. Í umhverfi sem er laust við refsingar er fólk gjarnan tilbúið til að axla ábyrgð á gjörðum sínum. Þau læra að það hvernig þeim líður (t.d. reiði) er annað en það sem þau gera (t.d. lemja) og að þó að tilfinningar eigi alltaf rétt á sér þá á það ekki við um allar athafnir. Með lausnaleitarferlinu læra þau fyrirbyggjandi leiðir til að tjá og bregðast við tilfinningum sínum og hugsunum. Þá þróa sjálfsaga og sjálfsstjórn með því að hugsa um og sjá fyrir afleiðingar af gjörðum sínum og með því að fá hugmyndir að leiðum frá jafnöldrum sínum.
Það að bjóða nemendum að rannsaka afleiðingar gerða þeirra er frábrugðið því að „beita afleiðingum“, sem er reyndar oftar en ekki dulbúin refsing. Með því að rannsaka afleiðingar gerða sinna læra nemendur af mistökum í stað þess að reyna að leyna þeim eða verja þau.

Ég get unnið með öðrum af virðingu
Jákvæður agi leggur til aðferðir sem þjálfa félagsfærni nemenda með samtali, með því að deila upplifunum, hlutsta, setja sig í spor annarra, vinna saman, semja og leysa ágreining. Þegar samskiptavandamál kemur upp er það gjarnan sett á dagskrá bekkjafundar eða lausnaferli (lausnastaðir, lausnahjól, lausnahugmyndir) eru notuð í stað þess að kennarinn leysi málin fyrir nemendur. Þetta þjálfar nemendur og kennara í að vinna saman að því að finna lausnir þar sem allir geta verið sigurvegarar.

Ég skil hvernig hegðun mín hefur áhrif á aðra
Skóli sem vinnur með Jákvæðan aga er staður þar sem nemendur geta brugðist við reglum og afleiðingum með ábyrgð, þrautseigju og af heilindum. Þau læra að það er í lagi að taka ábyrgð á mistökum sínum því að þau munu ekki upplifa ásakanir, skömm eða niðurlægingu. Þau læra smátt og smátt að hætta að kenna öðrum um og þróa með sér ábyrgðartilfinningu.

Ég get þróað innsýn, visku og dómgreind mína í gegnum daglegar athafnir
Ungt fólk þróar með sér dómgreind ef þau fá tækifæri til að meta vanda með meðvitund um áhrif samfélagsins í kringum þau. Þegar vandi kemur upp í Jákvæðs aga kennslustofu fá nemendur að kanna og ræða hvað gerðist, af hverju það gerðist, hvernig hegðun þeirra hefur áhrif á aðra og hvað þeir geta gert til að koma í veg fyrir eða leysa slík mál í framtíðinni. Á þennan hátt læra þau að bregðast við algengum vandamálum í samskiptum fólks.

Samantekt
Jákvæður agi virkar þegar kennarar eru viljugir til að vinna með nemendum á samstarfsmiðaðan hátt. Kennarar sem læra að spyrja meira og „predika“ minna þróa með sér raunverulegan áhuga á skoðunum og hugsunum nemenda. Þegar nemendur eru hvattir til að tjá skoðanir sínar, fá valkosti í stað skipana og nota lausnaleit í hóp batnar andrúmsloftið í hópnum og fer að einkennast af samvinnu og gagnkvæmri virðingu.

Þó það geti tekið á að byrja að halda bekkjafundi hvetjum við eindregið til þess. Það að taka tíma til að æfa hlutina leggur grunn að árangri. Kunnátta í hinum átta þrepum bekkjafunda er nauðsynleg til að skapa bekkjafundi þar sem nemendur vilja taka þátt. Þú byrjar á að kenna nemendum um lausnaleit, virðingu, hvatningu, samvinnu o.fl. og heldur svo áfram að æfa þessa færni og viðhorf á bekkjafundunum sjálfum.

Það getur tekið allt frá fjórum fundum og upp í nokkra mánuði að kynna þrepin fyrir nemendum. Þau munu að sjálfsögðu ekki læra mikið í félags- og tilfinningalegri hæfni á nokkrum vikum, slíkt tekur tíma. Þau þurfa daglega æfingu, rétt eins og með önnur fög í skólanum. Ef þú kynnir þrepin vel í byrjun öðlast nemendur skilning á ferlinu og geta æft sig smátt og smátt.

Átta þrep bekkjafunda

  1. Að mynda hringinn
  2. Að æfa þakkir, hvatningu og hrós
  3. Að virða fjölbreytileikann
  4. Að nýta jákvæðar leiðir til samskipta
  5. Að einbeita sér að lausnum
  6. Að nota hugstormun og hlutverkaleiki
  7. Að nota dagskrá og form fyrir bekkjafundi
  8. Að skilja hin fjögur „misheppnuðu markmið“ hegðunar